Enski boltinn

Bayern í viðræðum við Chelsea um Bosingwa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Bosingwa í leik með Chelsea.
Jose Bosingwa í leik með Chelsea. Nordic Photos / AFP

Bayern München á nú í viðræðum við Chelsea um kaup á portúgalska varnarmanninum Jose Bosingwa.

Þetta segir Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern, í samtali við þýska fjölmiðla.

„Við eigum í viðræðum en eigum enn eftir að fá samþykki Chelsea. Hann er einn besti hægri bakvörðurinn í heiminum í dag," sagði Rummenigge.

Bayern er nú að leita að hægri bakverði eftir að Willy Sagnol lagði skóna á hilluna og þá þótti Massimo Oddo ekki standast undir væntingum er hann var í láni hjá félaginu frá AC Milan.

Bayern þarf að selja leikmenn til að fjármagna kaupin og eru þeir Tim Borowski, Christian Lell og Andreas Ottl sagðir líklegastir til að fara frá félaginu.

Rummenigge sagði þó að félagið ætlaði að gera allt sem í sínu valdi stendur til að halda Franck Ribery en sá hefur verið orðaður við fjöldamörg félög að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×