Viðskipti erlent

AGS fær 10 milljarða dollara lán frá Kanada

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur gengið frá lánasamningi við stjórnvöld í Kanada um lán upp á allt að 10 milljarða dollara eða tæplega 1.290 milljarða kr.

Þeir Dominique Strauss-Kahn forstjóri AGS og Jim Flaherty fjármálaráðherra Kanada skrifuðu undir samkomulagið í gær. Kanada gaf loforð um þetta lán á G20 fundinum í apríl s.l.

Lánið mun auðvelda AGS að standa við þær skuldbindingar sem sjóðurinn hefur tekið á sig í aðstoð sinni við fleiri lönd heimsins sem orðið hafa hvað harðast úti í fjármálakreppunni.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að lánið muni bætast við tvö önnur lán sem AGS hefur fengið, frá Japan annarsvegar og norska seðlabankanum (Norges Bank) hinsvegar. Lánið frá Japan er upp á 100 milljarða dollara og Norges Bank hefur lánað AGS 4,5 milljarða dollara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×