Lífið

Leiklistarnemar fá hlutverk í rússneskri stórmynd

Í rússamynd Svandís Dóra leikur lítið hlutverk í kvikmynd Aleksandr Sokurov um Faust ásamt bekkjarbróður sínum, Hilmari Guðjónssyni. Sigurður Skúlason leikur föður Fausts í myndinni en tökulið myndarinnar var hér á landi í tvær vikur.Fréttablaðið/Valli
Í rússamynd Svandís Dóra leikur lítið hlutverk í kvikmynd Aleksandr Sokurov um Faust ásamt bekkjarbróður sínum, Hilmari Guðjónssyni. Sigurður Skúlason leikur föður Fausts í myndinni en tökulið myndarinnar var hér á landi í tvær vikur.Fréttablaðið/Valli

„Þetta var alveg geðveikt, í einu orði sagt. Ég hef aldrei séð jafn stórt batterí og það var alveg frábært að fá að taka þátt í þessu," segir Svandís Dóra Einarsdóttir leiklistarnemi. Þau Svandís Dóra og Hilmar Guðjónsson, leiklistarnemar á fjórða ári í leiklistardeild LHÍ, fengu fljúgandi start á ferli sínum þegar þau lönduðu litlum hlutverkum í stórmynd rússneska leikstjórans Aleksandr Sokurov um Faust. Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur tökuliðið verið hér á landi í tæpar tvær vikur en það hélt af landi brott í gærmorgun. Tökur hafa farið fram víðs vegar um Suðurlandið og í hrauninu við Bláa lónið. Þá leikur Sigurður Skúlason föður Faust í myndinni eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu en þær tökur áttu sér stað í Tékklandi. Þótt Sokurov sé ekki frá Hollywood nýtur hann mikillar virðingar í hinum alþjóðlega kvikmyndaheimi og hefur verið settur á stall með Ingmar Bergman og Stanley Kubrick.

„Þetta byrjaði allt saman í vor," segir Svandís. „Þá voru Eskimo með opnar prufur fyrir leikara og ég hitti hann í fyrsta skipti. Þegar það var síðan hringt í mig aftur þá hélt ég fyrst að það væri verið að ráða mig í einhverja auglýsingu," segir Svandís en hún lýsir leikprufunum sem mjög óhefðbundnum, hún hafi setið og spjallað við leikstjórann. Hún heldur vart vatni yfir rússneska leikstjóranum sem hefur fengið orð á sig fyrir að vera bæði skapstór og sérvitur. „Nei, hann var það alls ekki, hann var alltaf að koma og hlýja manni og það var bara stjanað við mig í hvívetna." Og þótt tökuliðið hafi að mestu leyti komið frá Rússlandi og Tékklandi voru engir tungumálaörðugleikar. Nema kannski helst fyrir leikstjórann sjálfan. „Það var þarna frábær túlkur, Aleksandr leikstýrði og svo heyrði maður bara aðra rödd frá öðrum stað."

Svandís hefur að undanförnu verið að sýna Eftirlitsmanninn með Nemendaleikhúsinu í leikstjórn Stefáns Jónssonar og henni líst vel á þessa djúpu og harðskeyttu leiklistarlaug. „Ég er bæði hrifin af leikhúsinu og kvikmyndunum, þetta er að mörgu leyti ólíkt en samt svo líkt. Ég bíð bara spennt eftir að takast á við þetta." freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.