Fótbolti

Mourinho stendur við loforð sín

NordicPhotos/GettyImages

Forseti Inter Milan segist ekki eiga von á öðru en að Jose Mourinho standi við samning sinn við félagið sem gildir til ársins 2011. Mourinho hefur verið orðaður við Real Madrid að undanförnu.

Spænskir fjölmiðlar hafa orðað Mourinho við þjálfarastöðuna hjá Real Madrid síðan ljóst varð að Arsene Wenger færi ekki frá Arsenal, en þessir tveir eru sagðir vera óskaþjálfarar forsetaefnisins Florentino Perez.

Massimo Moratti, forseti Inter, segir hinsvegar að Mourinho hafi lofað að standa við samning sinn hjá Inter og hann leggi ekki í vana sinn að svíkja loforð.

"Við heyrðum strax af þessum fréttum frá Spáni en þjálfarinn hefur lofað mér að hann vilji ekki fara. Ég vil trúa honum, því hann er ekki vanur að ganga á bak orða sinna;" sagði Moratti.

Mourinho sjálfur lýsti því nýverið yfir að það væri 100% öruggt að hann yrði áfram hjá Inter.

Ekki fylgir sögunni hvernig Juande Ramos þjálfara Real líður að heyra þessi tíðindi, en það er með hreinum ólíkindum hvað spænskir fjölmiðlar eru fljótir að gleyma.

Ekki er langt síðan Ramos stýrði Real til einhverrar lengstu sigurgöngu í sögu félagsins, en síðan hefur liðið fallið úr meistaradeildinni og misst af spænska meistaratitlinum og því virðist Ramos fallinn úr náðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×