Viðskipti erlent

Fleiri kvennforstjórar í Mongólíu en í Danmörku

Aðeins tíundi hver forstjóri í toppstöðum í Danmörku er kona og það hlutfall er minna en gengur og gerist í Mongólíu. Töluverð umræða hefur spunnist um þetta í dönskum fjölmiðlum enda telja Danir sig vera í fremstu röð þegar kemur að jafnrétti kynjanna.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að lönd á borð við Mongólíu, Botswana og Uganda hafi fyrir löngu skriðið framúr Danmörku þegar kemur að jafnrétti kynjanna í toppstöðum. Þetta má sjá í nýlegri skýrslu World Economic Forum (WEF) um málið.

Anette Brochorst, prófessor við háskólann í Aalborg og einn fremsti sérfræðingur Dana í jafnréttismálum, segir að þessar upplýsingar í WEF séu „pínlegar" fyrir Danmörku. „Þetta er ekki hvað síst merkilegt í ljósi þess að þarna aðskilur Danmörk sig verulega frá hinum Norðurlandanna," segir Brochorst.

Staðreyndin er nefnilega sú, eins og áður hefur komið fram, að samkvæmt skýrslu WEF halda Ísland, Finnland, Noregur og Svíþjóð stöðu sinni sem þau lönd sem eru með hlutfallslega flestar konur í toppstöðum í heiminum. Og hafa gert það fjögur ár í röð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×