Lífið

Til Englands með jólaleikrit

Felix er á leiðinni til Liverpool í næsta mánuði þar sem hann flytur einleik sinn Yulelads.
Felix er á leiðinni til Liverpool í næsta mánuði þar sem hann flytur einleik sinn Yulelads.

„Þetta verður gríðarlega spennandi,“ segir Felix Bergsson, sem er á leiðinni til Liverpool i nóvember þar sem hann flytur einleik sinn Yulelads í Unity-leikhúsinu. „Þetta verða tvær sýningar í Liverpool í mjög fínu leikhúsi þar.“

Einleikurinn, sem fjallar um íslenska jólasiði, er hluti afNICE-menningarhátíðinni þar sem leitast er við að tengja saman menningu Norðurlanda og norðvesturhluta Englands.

Í desember ætlar Felix síðan í vikuferð til London þar sem einleikurinn verður fluttur bæði í leikhúsi og í skólum. Þetta verður í þriðja sinn sem Felix ferðast með Yulelads til London en verkið var frumsýnt þar í borg árið 2002. Hann segir að Bretar hafi ávallt tekið sér vel. „Þetta eru svo skemmtilegar sögur. Þeir hafa mikinn áhuga á því hvernig jólasiðirnir okkar eru sprottnir út úr umhverfinu og þjóðsögunum. Þetta er okkar menningararfur.“

Felix ætlar að nota tækifærið að reyna að skella sér á fótboltaleik með Liverpool, enda forfallinn aðdándi Rauða hersins, sem styrkir einmitt NICE-hátíðina í ár. „Maður tékkar á því. Ég var heppinn síðast þegar ég fór út. Þá fékk ég leik í Meistaradeildinni.“

Hátíðin verður haldin dagana 19. nóvember til 3. desember og verður einleikurinn fluttur 21. nóvember. Fleiri Íslendingar verða á svæðinu því hljómsveitin Thin Jim and the Castaways spilar í opnunarhófi hennar auk þess sem kvikmyndin Brúðguminn verður sýnd. Sömuleiðis verða heimildarmyndirnar Steypa og Björk eftir þau Markús Þór Andrésson og Ragnheiði Gestsdóttur sýndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.