Skoðun

Jafnréttismál í öndvegi

Jóhanna Sigurðardóttir skrifar
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var jafnrétti kynja, mannréttindi og kvenfrelsi meðal þeirra gilda sem voru sett í öndvegi með afgerandi hætti. Skipuð hefur verið sérstök ráðherranefnd um jafnréttismál til þess að fylgja þessari stefnumótun eftir og er henni ætlað að efla forystu og samhæfingu í sérstökum forgangs- og áherslumálum á þessu sviði.

Ráðherranefndin hefur þegar hafið vinnu við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, þar sem lagðar verða línur fyrir átak í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við starfsemi ríkisstjórnar og ráðuneyta. Það verklag verður innleitt að stjórnarfrumvörp og meiriháttar ákvarðanir og áætlanir ríkisstjórnar sem geta haft áhrif á stöðu jafnréttis kynjanna fari í gegnum sérstakt jafnréttismat. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á að aðgerðir til atvinnusköpunar þjóni jafnt konum og körlum. Fjármálaráðherra hefur ýtt úr vör sérstöku verkefni sem felur það í sér að fjárlögum sé meðvitað beitt í þágu markmiða um jafnrétti kynjanna.







Öryggi kvennaAðgerðaáætlun gegn mansali var samþykkt í mars sl. af minnihlutastjórn sömu flokka og nú skipa ríkisstjórn. Nú þegar hefur um helmingi af boðuðum aðgerðum hennar verið hrint í framkvæmd eða komið í framkvæmdaferli. M.a. hefur Alþingi breytt hegningarlögum þannig að kaup á vændi eru nú refsiverð. Að baki er sú þríþætta grundvallarafstaða: að enginn á í krafti peninga að geta náð yfirráðum yfir líkama annarrar manneskju; að rekstur á vændisstarfssemi og vændiskaup séu birtingarmynd kynferðislegs ofbeldis og kúgunar; og að þeir sem leiðist út í vændi séu fórnarlömb efnahagslegs, félagslegs og í flestum tilfellum kynbundins misréttis sem eiga tilkall til þess að samfélagið í heild grípi til úrræða til að uppræta slíkt misrétti.

Á yfirstandandi þingi verður væntanlega samþykkt frumvarp um bann við starfsemi nektarstaða af sömu ástæðum og á grundvelli vísbendinga um tengsl þeirra við vændi og mansal. Frumvörp um lagabreytingar sem lúta að fullgildingu á alþjóðasáttmálum gegn mansali verða lögð fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi þar sem m.a. réttarstaða fórnarlamba og vernd og aðstoð við þau verða tryggð. Sérfræði- og samhæfingarteymi gegn mansali hefur tekið til starfa, en það hefur staðist sína fyrstu eldskírn varðandi það sérstaka mansalsmál sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu.

Átak gegn ofbeldi stendur nú yfir og það er viðleitni sem er ákaflega brýn þegar talsvert ber á ofbeldi á heimilum og á almannafæri. Ofbeldisseggi verður að hefta og hemja hvort sem þeir eru inni á heimilum, í Vítisenglum, erlendum glæpagengjum eða hafa lent í ógæfu fíkniefna eða annarrar óreglu. Við getum ekki unað því að ofbeldismenn vaði uppi en fórnarlömb þeirra beri allan andlegan og fjárhagslegan skaða. Fórnarlömbunum ber þvert á móti virðing samfélagsins. Við stefnum að því að leiða hina svokölluðu „austurrísku leið" í lög, en hún snýr að heimildum lögreglu til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili, sem kæmi þá í stað þess að fórnarlömb ofbeldisins þurfi að yfirgefa heimili sitt sér til verndar.

 

Jafnræði í stjórnsýslu og atvinnulífiÁ vettvangi ráðuneyta hefur markmiðum um jafnari kynjahlutföll við skipun ráða og nefnda verið skipulega fylgt eftir en þar er t.d. við þann ramma reip að draga að tilnefningaraðilar streitast í sumum tilfellum við að tilnefna bæði karla og konur. Ráðuneytin hafa nú innleitt strangari eftirfylgni og meira eftirlit gagnvart tilnefningaraðilum. Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem leggur þá skyldu á herðar þeim sem skipa stjórnir einkahlutafélaga að gæta að því að hlutur kynja verði sem jafnastur og er markmiðið að stuðla að auknum hlut kvenna í ábyrgðarstöðum á vettvangi efnahagslífsins.

Launajafnrétti kynja er áfram eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Unnið er að gerð jafnlaunastaðals í samvinnu við samtök launafólks, samtök atvinnurekenda og Staðlaráð. Þetta er frumkvöðlaverkefni, enda hefur staðall um launajafnrétti hvergi áður verið gerður, hvorki hér á landi né í öðrum löndum. Miklar væntingar eru bundnar við þetta verkefni, enda er markmiðið að búa til staðal sem hvort tveggja í senn yrði atvinnurekendum til leiðbeiningar um uppbyggingu launakerfa sinna og tæki til að meta hvort þeir uppfylli ákvæði jafnréttislaga um launajafnrétti.

Með þennan bakgrunn í huga fagna ég því að í nýlegri alþjóðlegri könnun var Ísland í fyrsta sæti í jafnréttismálum. Það er ánægjuleg viðurkenning á því að ríkisstjórnin hefur sett jafnrétti kynja, mannréttindi og kvenfrelsi í öndvegi með afgerandi hætti.

Höfundur er forsætisráðherra.










Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×