Lífið

Strætin ljóma, borgin syngur

Í gær hleypti Reykjavíkurborg af stokkunum átaksverkefninu Ljómandi borg með því að kveikt var á friðarsúlunni í Viðey.

Átakið er beint áframhald af Björtum dögum. Þema „Ljómandi borgar" er ljósin í borginni, vatnið og veturinn. Lýsing verður nýtt til að vekja athygli á forvitnilegum og öðruvísi hliðum borgarinnar, mannvirkjum og náttúru. Með því að kveikja á kerti eða hvítum ljósum í sínu nærumhverfi, t.d. í glugga, þá geta borgarbúar tekið þátt í að lýsa upp okkar Ljómandi borg.

Borgarstjórinn Hanna Birna segir Ljómandi borg hafa þann tilgang einan að gleðja íbúa og gera borgina okkar hlýlegri, skemmtilegri og enn betri. Meðal viðburða verður útsending sinfóníutónleika í sundlaugum, samkeppni um snjólistaverk, tónlistarhátíð, útimarkaðir í miðborginni, kaffihús í Hljómskálanum á aðventunni, dagskrá fyrir börn á bókasöfnum og fleira.

Í dag verða tónleikar í Ráðhúsinu þar sem Karlakór Reykjavíkur býður borgarbúum að hlýða á fjölbreytta efnisskrá. Drengjakór Reykjavíkur mun einnig koma fram. Stjórnandi beggja kóranna er Friðrik S. Kristinsson. Tónleikarnir hefjast kl 16.

Á morgun verða í Ráðhúsi Reykjavíkur tónleikar Stórsveitar Reykjavíkur kl. 16. Einleikari verður Björn Thoroddsen gítarleikari. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir.

Tendrum ljós! Verum björt!

pbb@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.