Fótbolti

Henry nálægt því að hætta með landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Henry (12) og félagar fagna markinu umdeilda.
Henry (12) og félagar fagna markinu umdeilda. Nordic Photos / AFP

Thierry Henry viðurkenni að það hafði hvarflað að honum að hætta að spila með franska landsliðinu eftir að hann handlék knöttinn í leik Frakka og Íra í undankeppni HM 2010.

Henry lagði boltann tvívegis fyrir sig með höndinni eins og frægt er orðið áður en hann lagði upp markið sem kom Frökkum á HM en sló um leið Íra úr leik.

Knattspyrnusamband Íra vildi láta endurtaka leikinn en það þótti ekki koma til greina hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, enda stríðir það gegn reglum sambandsins. Dómarar taka allar ákvarðanir á meðan leiknum stendur og er ekki hægt að breyta þeim.

Í kjölfarið fór mikill fjölmiðlafár af stað og Henry hefur síðan þá mátt þola harkalega gagnrýni úr öllum heimshornum.

„Ó, já," sagði Henry þegar hann var spurður í viðtali sem birtist í franska dagblaðinu L'Equipe hvort hvarflað hafði að honum að hætta. „Ég var í miklu uppnámi þegar allur æsingurinn náði hámarki á föstudaginn. En ég hef áður íhugað að hætta að spila með landsliðinu, til að mynda eftir HM 2006. Líka eftir EM 2008 en það var einnig of snemmt. Það var kynslóð að koma upp sem þurfti á mér að halda."

„Og þrátt fyrir allt sem hefur gengið á mun ég ekki bregðast skyldu minni gagnvart minni þjóð."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×