Viðskipti erlent

Sænsk herrasetur til sölu á tombóluverði

Fjármálakreppan og lágt gengi sænsku krónunnar hefur gert það að verkum að nú er hægt að kaupa sænsk herrasetur (herregård) á tombóluverði. Dæmi eru um að verð á þeim hafi fallið niður í 60 milljónir kr. sem er svipað og kostar að kaupa fjögurra herbergja íbúð í Kaupmannahöfn.

Í umfjöllun um málið í Jyllands Posten vitnar blaðið í nýlega úttekt sem Dagens Industri í Svíþjóð gerði á þeim herrasetrum sem nú eru auglýst til sölu þar í landi. Hvað setrið sem er til sölu á 60 milljónir kr. eða 3,4 milljónir sænskra kr. varðar er þar um að ræða setur sem er 580 fm að stærð og fylgir lóð upp á 13.000 fm með í kaupunum. Setrið er staðsett við austurströnd Svíþjóðar í um 400 km fjarlægð frá Kaupmannahöfn.

Í Jyllands Posten segir að nú sé hægt að gera reyfarakaup á þessum markaði í Svíþjóð. Blaðið nefnir annað dæmi þar sem 850 fm herrasetur á Värmland svæðinu kostar 3,5 milljónir sænskra kr. Því setri fylgir svo 110.000 fm eða 11 hektara lóð.

Bestu kaupin að mati Jyllands Posten eru þó í Surahammers herrasetrinu sem staðsett er vestur af Stokkhólmi. Það er 1.279 fm að stærð byggt í enskum kastalastíl árin 1856-1858. Því setri fylgir 30.000 fm lóð og verðmiðinn er 12,5 milljónir sænskra kr. eða 200 milljónir kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×