Lífið

Fyndið að vera spilaðir á FM

Hvanndalsbræður: Vilmar, Valur, Sumarliði, Pétur og Rögnvaldur.
Hvanndalsbræður: Vilmar, Valur, Sumarliði, Pétur og Rögnvaldur.

Galgopabandið Hvanndalsbræður var stofnað árið 2002. Rögnvaldur „gáfaði“ Rögnvaldsson var ávallt í fararbroddi og þegar hann yfirgaf bandið í vor áttu margir von á að sveitin væri í andaslitrunum. Það var nú aldeilis ekki. Bandið hélt áfram án Rögnvaldar og hefur aldrei verið eins vinsælt og í dag. Lögin „La-la-lagið“ og „Vinkona“ hafa flogið upp flesta vinsældalista landsins.

„Þetta er eiginlega bara alveg ótrúlegt. Það er bara alveg brjálað að gera hjá okkur. Eins og Röggi segir sjálfur þá var hann ekki fyrr búinn að pakka niður gítarnum að það fór eitthvað að gerast hjá bandinu,“ segir Valur Hvanndal og bætir við: „Við lítum nú reyndar þannig á að Röggi sé bara í pásu. Að ná áttum og komi svo tvíefldur til baka. Hann kom reyndar með okkur um síðustu helgi þegar við vorum að spila á Selfossi og í Keflavík. Hann var í miðasölunni og fannst það æðislegt.

Valur segir „eitt smellið jólalag“ á leiðinni og svo ný plata næsta vor. Hljómsveitin er spiluð í spað um þessar mundir á bæði FM, Kananum og Bylgjunni og strákarnir skilja það ekki. „Einhvern tímann hefði það ekki verið fræðilegur möguleiki að við værum spilaðir á þessum stöðvum, en tímarnir eru greinilega breyttir og mennirnir með,“ segir Valur. „Við höfum hingað til plumað okkur ágætlega bara á Rás 2. Okkur finnst það aðallega bara fyndið að við séum spilaðir á FM957!“

Hvanndalsbræður halda uppi stuðinu frá kl. 22 í kvöld á Kaffi Rósenberg. - drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.