Lífið

Er ekki að fara á bak orða minna

Bubbi Morthens segist í dag ekki sjá það fyrir sér að hann muni syngja í Eurovision. Fréttablaðið/Stefán
Bubbi Morthens segist í dag ekki sjá það fyrir sér að hann muni syngja í Eurovision. Fréttablaðið/Stefán

„Nei, ég tel ekki að ég sé að ganga á bak orða minna,“ segir Bubbi Morthens en eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær tekur Bubbi þátt í forkeppni Söngvakeppni Sjóvnvarpsins, Eurovision, ásamt nágranna sínum og vini, Óskari Páli Sveinssyni. Fræg ummæli Bubba frá árinu 2007 voru rifjuð upp í kjölfarið en þá sagðist hann aldrei ætla að taka þátt í Eurovision. Bubbi dregur aðeins í land með þessi orð.

„Höfum þetta þá svona: Ég sé það ekki fyrir mér að ég muni syngja í Eurovision. Ég hef hins vegar aldrei verið feiminn við að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér og er ófeiminn við að skipta um skoðun,“ segir Bubbi.

Bubbi hefur sterkar skoðanir á keppninni. Að hans mati eru árin 1975 til 2007 einhver mestu hörmungarár í sögu hennar. „En frá árinu 2007 er eins og eitthvað hafi gerst. Maður fór að heyra lög sem höfðu einhvern karakter og þjóðir á borð við Frakka sýndu smá metnað. Ég meina Bretar sendu eitt fremsta dægurlagaskáld heims til leiks í fyrra [Andrew Lloyd Webber] og hann sat sjálfur við píanóið,“ segir Bubbi og bætir því við að hann hafi verið ákaflega hrifinn af laginu frá Tékklandi í fyrra.

Bubbi segir útkomu lagsins velta mjög mikið á því að flytjandinn sem hann og Óskar hafa í huga láti slag standa. „Ég hlakka bara mikið til, mér finnst þetta spennandi og ég anda alveg sérstaklega rólega af því að ég mun ekki syngja lagið.“

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.