Viðskipti erlent

Græddi tugi milljarða á breska bankahruninu

Vogunarsjóður bandaríska fjárfestisins John Paulson græddi 311 milljónir punda, eða um 50 milljarða kr. á hruni breska bankakerfisins í vetur. Og þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Paulson græðir tugi milljarða á því að skortselja hlutabréf í breskum bönkum.

Í umfjöllun um málið á Bloomberg-fréttaveitunni kemur fram að Paulson hóf að skortselja hlutabréf í bæði Lloyds bankanum og HBOS s.l. haust. Hann tók að láni hlutabréf í þessum bönkum í september af stærðargráðunni 367 milljónir punda og seldi þau strax.

Nú í mars nam eign Paulson í þessu bönkum 50 milljónum punda þannig að hann hefur sett 311 milljónir punda í vasann eftir þessa skortsölu. Það fylgir svo sögunni að vogunarsjóður Paulson hafi leikið sama leikinn við Royal Bank of Scotland og þar græddi hann a.m.k. 295 milljónir punda eða hátt í 50 milljarða kr. á að skortselja bréf í þeim banka.

Bloomberg greinir einnig frá því að Paulson hafi grætt um 3 milljarða dollara eða um 330 milljarða kr. á að veðja á að bandaríski fasteignamarkaðurinn myndi hrynja vegna undirmálslánakreppunnar.

Leigh Goodwin greinandi hjá Fox-Pitt Kelton í London segir að Paulson hafi lesið markaðinn hárrétt. Og það hafi valdið því að vogunarsjóður hans gaf af sér 37% hagnað af fjárfestingum í fyrra þegar vogunarsjóðir í heildina skiluðu tapi upp á 19%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×