Handbolti

Júlíus: Tekur tíma að slípa liðið til

Júlíus Jónasson
Júlíus Jónasson Mynd/GVA
"Ég tel að sé mjög mikilvægt fyrir okkur að fá leiki af því það er talsvert langt síðan við spiluðum," sagði Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari þegar hann var spurður út í æfingaleikina þrjá við Svisslendinga.

Kvennalandsliðið í handbolta spilar í kvöld fyrsta æfingaleik sinn af þremur við Svisslendinga í Framhúsinu, en liðin leika þrisvar á þremur dögum.

"Reyndar höfum við spilað við mjög sterk lið í síðustu leikjum, en það er líka mjög gott að fá svona leiki alveg í restina þar sem við getum verið að æfa leikaðferðir. Ég hef verið að yngja liðið upp á þeim tíma sem ég hef verið hérna og það tekur einhvern tíma að slípa þetta til og búa til lið,"

Júlíus var því næst spurður út í möguleika íslenska landsliðsins þegar í alvöruna kemur í haust þegar það tekur þátt í forkeppni EM og mætir þar m.a. sterkum liðum Frakklands og Austurríkis.

"Möguleikarnir eru alltaf fyrir hendi. Frakkarnir eru með sterkasta liðið. Austurríki er dálítið spurningamerki en hefur verið ofarlega á blaði síðustu ár og við erum sett í þriðja styrkleikaflokk þarna. Fyrirfram er þetta mjög erfitt, en við erum í þessu til að setja okkur markmið og klára þau. Við stefnum á að reyna að vinna þennan riðil, þó það verði erfitt," sagði Júlíus.

Æfingaleikir landsliðsins gegn Sviss verða sem hér segir:

Mánudagur 18. maí kl. 19.30 Framhús Reykjavík

Þriðjudagur 19. maí kl. 19.30 Íþróttahúsið á Selfossi

Miðvikudagur 20.maí kl. 18.00 Íþróttahúsið Austurberg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×