Fótbolti

Roberto Mancini vill þjálfa lið utan Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini.
Roberto Mancini. Mynd/AFP

Roberto Mancini hefur nú gefið það út að hann vilji þjálfa lið utan Ítalíu en Mancini hefur verið atvinnulaus síðan Inter rak hann í fyrra.

Það er vitað um áhuga liða á bæði Ítalíu og á Englandi en nú er þó talið ólíklegt að hann fari til Manchester City eða Chelsea eins og var í spilunum um tíma. Mark Hughes verður örugglega áfram hjá City og mestar líkur er á að Carlo Ancelotti taki við Chelsea.

Mancini hefur mikinn áhuga á því að snúa aftur í þjálfun. „Framtíð mín er utan Ítalíu. Ég er ekki með nein tilboð eins og er en ég er heldur ekkert að flýta mér. Ég vona að það verði erlent félag sem leiti til mín," sagði Roberto Mancini í útvarpsviðtali á Radio Viola.

Mancini hefur verið orðaður við Inter-liðið á nýjan leik fari svo að Jose Mourinho taki við Real Madrid. Mancini vill ekki útiloka neitt en það að heyra á honum að hann sé ekki að fara að þjálfa í ítölsku deildinni á næsta tímabili.

Roberto Mancini er 44 ára gamall og hann vann þrjá meistaratitla og tvo bikarmeistaratitla með Internazionale þegar hann þjálfaði liðið frá 2004 til 2008. Hann hefur einnig þjálfað Fiorentina (2001-02) og Lazio (2002-04). Hann gerði bæði Fiorentina og Lazio að bikarmeisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×