Erlent

Fjögurra daga fæðing tvíbura

Óli Tynes skrifar

Fjórir dagar liðu á milli fæðinga tvíbura norskrar konu í síðasta mánuði. Mjög óvenjulegt er að svo langur tími líði á milli fæðinga.

Tvíburarnir sem eru strákar eru fyrirburar. Þeir fæddust í tuttugustu og fimmtu viku meðgöngu. Sá fyrri var aðeins 770 grömm þegar hann kom í heiminn. Litli bróðir var hinsvegar ívið stærri eða 810 grömm.

Það var erfitt fyrir móðurina að bíða eftir síðari fæðingunni. Hún segir að sig hafi langað mikið til að annast strax um fyrri strákinn.

Hinn hafi hinsvegar verið sparkandi í maga hennar og hún hafi ekkert mátt hreyfa sig til þess að halda honum sem lengst.

Móðirin hefur nú verið útskrifuð en litlu guttarnir hennar verða líklega geymdir í hitakössum á sjúkrahúsinu til áramóta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×