Innlent

Tveir í gæsluvarðhald - fimm handteknir

Sigurður Ólason var handtekinn í gær.
Sigurður Ólason var handtekinn í gær.

Tveir karlmenn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 19. júní næstkomandi, grunaðir um aðild að skipulagningu á innflutningi á fíkniefnum til landsins auk peningaþvættis.

 

Karlmennirnir heita Ársæll Snorrason sem er á fertugsaldri og svo Sigurður Ólason sem er á sextugsaldri.

 

Þegar er í haldi lögreglu vegna málsins einn karlmaður á þrítugsaldri.

 

Í aðgerð lögreglu í gær voru fimm menn handteknir og framkvæmdar 11 húsleitir.

Sigurður Ólason var handtekinn í gærmorgun í fyrirtækinu R. Sigmundssyni í Klettagörðum þar sem hann situr í stjórn. Á sama tíma var Ársæll Snorrason handtekinn í klefa sínum á Litla-Hrauni þar sem hann afplánar dópdóm. Þriðji maðurinn, sem er margdæmdur, var einnig tekinn höndum. Gerð var húsleit á heimili hans í Breiðholti.

Grunur leikur á að mennirnir tengist tilraun til að smygla gríðarlegu magni af fíkniefnum til landsins frá Hollandi. Heimildir fréttastofu herma að einhverjir hafi verið handteknir vegna málsins þar í landi. Þeirra á meðal er Íslandvinurinn Johan Hendrick sem fékk sex ára fangelsisdóm fyrir þátt sinn í Stóra BMW-málinu árið 2006 þar sem áðurnefndur Ársæll var einnig dæmdur.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókn lögreglu sé liður í rannsókn fleiri landa og unnin í samvinnu við tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol.

 

Hér á landi hafa lögregluembættin á Suðurnesjum og Tollyfirvöld komið að málinu. Vegna rannsóknarhagsmuna verða frekari upplýsingar ekki veittar að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Þrír dæmdir dópsmyglarar handteknir í gær

Fíkniefnalögreglan handtók í gær þrjá þekkta dópsmyglara í tengslum við rannsókn á gríðarlega umfangsmiklu fíkniefnamáli. Hinir handteknu eru Sigurður Ólason, Rúnar Ben Maitsland og Ársæll Snorrason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×