Körfubolti

Los Angeles Lakers komst í NBA-úrslitin í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant fagnar með félögum sínum í nótt.
Kobe Bryant fagnar með félögum sínum í nótt. Mynd/GettyImages

Los Angeles Lakers vann sannfærandi og auðveldan 119-92 sigur á Denver Nuggets í sjötta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar. Lakers vann því einvígið 4-2 og er komið í lokaúrslitin annað árið í röð.

Kobe Bryant átti mjög góðan leik fyrir Lakers-liðið en annars voru margir leikmenn liðsins að leika vel og liðið spilaði mjög vel saman. Bryant fann hið gullna jafnvægi milli þess að skora sjálfur (35 stig) og spila uppi félagana (10 stoðsendingar).

Pau Gasol var einnig góður með 20 stig og 12 fráköst og 6 stoðsendingar. Lamar Odom kom með 20 stig og 8 fráköst af bekknum. Trevor Ariza byrjaði leikinn líka frábærlega og endaði leikinn með 17 stig.

Denver-liðið náði ekki að ógna Lakers í leiknum þrátt fyrir að vera að berjast fyrir lífi sínu. Carmelo Anthony var stigahæstur með 25 stig og J. R. Smith skoraði 24 stig. Chauncey Billups var með 10 stig og 9 stoðsendingar en klikkaði á 5 af 7 skotum og tapaði fimm boltum.

Los Angeles Lakers mætir annaðhvort Orlando Magic eða Cleveland Cavaliers í lokaúrslitunum en staðan er 3-2 fyrir Orlando í úrslitum austurdeildarinnar. Sjötti leikurinn í því einvígi fer fram í Orlando í kvöld og þar getur Magic-liðið tryggt sér sæti í úrslitunum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×