Halla mun frekar undan fæti á hlutabréfamörkuðum og munu nýmarkaðsríkin fylgja hinum ríkjunum inn í alvarlega og djúpa kreppa. Svo mælir dr. Nouriel Roubini, prófessor í hagfræði við New York-háskóla.
Roubini komst í sviðsljósið fyrir um þremur árum þegar hann spáði fyrir um hremmingar tengdum bandarískum fasteignamarkaði og dómínó-áhrifa því tengdu. Margir af helstu svartsýnisspám hans hafa gengið eftir. Á meðal þeirra voru þrengingar banka og fjármálafyrirtækja af völdum of mikillar skuldsetningar.
Fyrir vikið hlaut hann viðurnefnið „Doktor Dómsdagur“.
„Það er engin felustaður lengur til fyrir kreppunni," sagði Roubini og benti á að hremmingarnar teygðu sig nú um allan heim.
Hann mælir með því að bandarísk stjórnvöld ríkisvæði stærstu banka landsins. Bankarnir, að hans mati, séu svo illa staddir eftir það sem á undan sé gengið, að skuldir séu langt umfram eignir og séu þeir í raun og veru gjaldþrota. Hugsanlega megi selja þá aftur eftir tvö til þrjú ár.
Hann líkti ástandinu nú við efnahagslægðina sem gekk yfir Asíu á tíunda áratug síðustu aldar. Stjórnvöld í Japan hafi látið hjá líða að bjarga fjármálafyrirtækjunum á sama tíma og verðhjöðnun og kreppa reið yfir með þeim afleiðingum að ekki tókst að blása lífi í hagvöxt þar á ný.