Lífið

Nanna tilnefnd til Gourmand World Cookbook

Maturinn hennar Nönnu er tilnefnd í tveimur flokkum til hinna virtu Gourmand World Cookbook verðlauna, en úrslitin verða tilkynnt í París 11. febrúar næstkomandi.
Fréttablaðið/Vilhelm
Maturinn hennar Nönnu er tilnefnd í tveimur flokkum til hinna virtu Gourmand World Cookbook verðlauna, en úrslitin verða tilkynnt í París 11. febrúar næstkomandi. Fréttablaðið/Vilhelm

„Þetta er mjög gaman,“ sagði Nanna Rögnvaldsdóttir matreiðslubókahöfundur þegar Fréttablaðið náði tali af henni. Bók hennar, Maturinn hennar Nönnu, er tilnefnd í tveimur flokkum til hinna virtu Gourmand World Cookbook verðlauna sem „Best Innovative Food Book“ og „Best Cookbook Illustrations“ árið 2009.

Verðlaunin hafa verið veitt undanfarin fjórtán ár og þykja mikill heiður, en þeim hefur verið líkt við Ólympíuleika kokkabókanna. Tilgangur þeirra er meðal annars að hjálpa lesendum að velja milli þeirra 26.000 titla sem koma út árlega um mat og vín og auka þekkingu og virðingu fyrir matar- og vínmenningu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bók eftir íslenskan höfund er tilnefnd því Delicious Iceland eftir kokkinn Völund Snæ Völundarson hefur unnið til verðlaunanna, en samkeppnin um þau er mjög hörð. Í fyrra voru sendar inn rúmlega 6000 bækur frá 107 löndum og í ár taka alls 136 lönd þátt í keppninni.

„Það skiptir máli að hafa verið valin þarna í ákveðið úrval. Þetta þýðir að þær bækur sem eru tilnefndar, hvort sem þær fá verðlaun eða ekki, verða á sýningum víða og vekja meiri athygli,“ segir Nanna. Maturinn hennar Nönnu kom út í vor og í bókinni gefur hún upppskriftir að einföldum mat af því tagi sem hún eldar sjálf handa sínu fólki, réttum sem hægt er að breyta á ýmsa vegu, eftir smekk og fjárhag hvers og eins eða eftir því hvað er í skápunum hverju sinni. Þá er áhersla lögð á að borða vel án þess að kosta miklu til, en um myndskreytingar í bókinni sjá þau Gísli Egill Hrafnsson og Alexandra Buhl.

„Ég var að reyna að skrifa bók sem væri fyrir algjöra byrjendur og að þeir sem eru lengra komnir og segjast aldrei nota matreiðslubækur gætu allavega fengið hugmyndir. Bókin hefur fengið mjög góðar viðtökur hérna heima og mér finnst mjög skemmtilegt að vera tilnefnd í flokknum „Best Innovative Food book,“ því þetta var ný hugmynd sem ég var að vinna útfrá,“ segir Nanna sem hefur skrifað fjölda annarra matreiðslubóka svo sem Matarás og Matreiðslubók Nönnu og fjallað um mat og matargerð í hinum ýmsu blöðum og tímaritum.

Úrslitin verða tilkynnt á matreiðslubókasýningu í París 11. febrúar næstkomandi, en þar koma helstu spekúlantar og fagaðilar í gourmet-útgáfu heimsins saman á stærsta bókamessa sinnar tegundar í heiminum. „Nú þarf ég að fara að velta því fyrir mér hvort ég eigi að bregða mér til Parísar á verðlaunaafhendinguna,“ segir Nanna meðal annars á bloggsíðu sinni nanna.midjan.is.

alma@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.