Lífið

Matargúru ósátt við eldamennsku sjónvarpskokks

Brotið eða óbrotið, það er spurningin
Nanna Rögnvaldsdóttir heldur því fram á bloggsíðu sinni að það sé ekki náttúrlegt að brjóta spagettí áður en það er soðið. Jóhanna Vígdís segir krökkunum sínum ganga betur að borða það ef það er brotið í tvennt. Þær eru ekki sammála um hvernig eigi að sjóða þenna vinsæla, ítalska mat.
Brotið eða óbrotið, það er spurningin Nanna Rögnvaldsdóttir heldur því fram á bloggsíðu sinni að það sé ekki náttúrlegt að brjóta spagettí áður en það er soðið. Jóhanna Vígdís segir krökkunum sínum ganga betur að borða það ef það er brotið í tvennt. Þær eru ekki sammála um hvernig eigi að sjóða þenna vinsæla, ítalska mat.
Nanna Rögnvaldardóttir gagnrýnir aðferðir Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við eldun spaghettís í síðasta matreiðsluþætti hennar. Sjónvarpskokkurinn fagnar umræðunni. „Ég var ekkert hífandi brjáluð, síst af öllu út í Jóhönnu sem er ákaflega skemmtileg kona og ég er mjög hrifin því sem hún hefur gert,“ segir Nanna í samtali við Fréttablaðið en hún setti gagnrýni sína fram á bloggi sínu. Matargúrúrið Nanna, sem sjálf hefur gefið út fjölda matreiðslubóka. bætir því við að fólk hafi skipst í tvö horn í athugasemdakerfi hennar, sumir hafi verið ákaflega hrifnir af því sem Jóhanna bauð upp á, aðrir ekki.

Nanna gerir mestar athugasemdar við hvernig Jóhanna sauð spagettíið. Og að hún skyldi brjóta spagettíið, slíkt brjóti nánast í bága við eðli þess. „Því það er bara ekki náttúrulegt að brjóta spaghettí í tvennt. Sem sannast á því að ef maður tekur spaghettílengju, heldur um endana og beygir þar til hún brotnar, þá brotnar hún nánast aldrei í tvennt,“ útskýrir Nanna á bloggi sínu. Og svo er það hvernig Jóhanna sauð spagettíið. „Maður notar stóran pott með miklu vatni sem á að vera bullsjóðandi þegar pastað er sett út í. Ég endurtek: Bullsjóðandi,“ skrifar Nanna og skilur lítið í þeirri pælingu að kæla spagettíið líkt og Jóhanna gerði í þættinum.

Jóhanna Vigdís er ánægð með að fólk skuli ræða sín á milli hvernig eigi að sjóða spagettí. Sú umræða sé í það minnsta skemmtileg. „Ég segi auðvitað bara frá því sem ég geri og hvað hefur gengið best hjá mér í gegnum tíðina,“ Jóhanna skilur að Nanna skuli ekki vera sátt við brotna spagettíið. „Það eru margir sem vilja alls ekki gera það en krökkunum mínum hefur gengið best með spagettíið þannig þótt auðvitað hafi ég líka soðið það án þess að brjóta það.“

Sjónvarpskonan bætir því við að upphaflega hugmyndin með þáttunum hafi verið sú að gefa fólki hugmyndir og tækifæri til að prófa eitthvað nýtt. „Maður á ekki endilega að segja að eitt sé rétt og annað rangt. Fólk á að skiptast á skoðunum og ég hef fengið mikið af viðbrögðum. Það var til að mynda ungur strákur sem hafði samband og spurði hvað hann ætti að fá sér í morgunmat.“ Jóhanna segir það hafa komið sér á óvart hversu mikill áhuginn er á matreiðsluþættinum. „Ég hef skrifað um mat í yfir tuttugu ár og hef alltaf sagt að maður á aldrei að loka á eitt eða neitt. Það geta allir tjáð sig um mat og það hafa langflestir gaman af því að borða.“

freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.