Viðskipti erlent

Makríldeila Norðmanna og ESB tekur nýja stefnu

Deila Norðmanna og Evrópusambandsins um veiðar á makríl í lögsögu ESB tók nýja stefnu í gær er norsk stjórnvöld sendu öllum aðildarlöndum sambandsins bréf, þar sem hvatt er til þess að þau beiti sér fyrir því opnað verði fyrir makrílveiðar innan lögsögu ESB að nýju.

Fjallað er um málið á vefsíðu LÍÚ. Þar segir að gangi þetta ekki eftir muni það setja samninga um gagnkvæmar veiðiheimildir á næsta ári í uppnám.

Í frétt sem birt er á vefsíðu Norges fiskarlag er m.a. vitnað í bréfið. Þar segir í lauslegri þýðingu: „Haldi ESB fast við sinn keip í þessu deilumáli í komandi samningum um veiðiheimildir á árinu 2010 er ljóst að samningsaðilar standa frammi fyrir sérlega viðkvæmum og erfiðum viðræðum, sem mögulegt er að hafi í för með sér neikvæðar afleiðingar fyrir sjávarútveg jafnt innan Evrópusambandsins sem í Noregi. Noregur hvetur því Evrópusambandið enn á ný til að heimila makrílveiðar norskra skipa í lögsögu þess."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×