Enski boltinn

Gerrard: Við getum bjargað tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard fagnar marki í leik með Liverpool.
Steven Gerrard fagnar marki í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Steven Gerrard, leikmaður Liverpool, segir að enn sé tími til að bjarga tímabilinu en liðið hefur nú unnið aðeins einn af síðustu tíu leikjum sínum í öllum keppnum.

Liverpool verður að vinna Debrecen á útivelli í Meistaradeildinni nú í vikunni og treysta á að úrslit leiks Fiorentina og Lyon verði liðinu hagstæð til að komast áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

Liðið á svo leik gegn Everton um næstu helgi og tap í þeim leik gæti þýtt að liðið verði sextán stigum á eftir toppliði Chelsea í deildinni.

„Þrátt fyrir allt er stemningin í leikmannahópnum nokkuð góð," sagði Gerrard. „Við höfum trú á okkar getu og vitum að við getum enn bjargað tímabilinu."

Gerrard hefur átt við meiðsli að stríða en var í byrjunarliði Liverpool á ný er liðið gerði 2-2 jafntefli við Manchester City um helgina.

„Þetta hefur verið nokkuð pirrandi því um leið og ég var orðinn leikfær kom hlé í deildinni vegna landsleikja. Ég var orðinn afar óþreyjufullur eftir því að fara að spila á nýjan leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×