Innlent

Vodafone: Rannsókn mun taka af allan vafa um eðlilega viðskiptahætti

Árni Pétur Jónsson,forstjóri Vodafone.
Árni Pétur Jónsson,forstjóri Vodafone.

Forsvarsmenn símafyrirtækisins Vodafone, sem Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá í morgun, taka í sama streng og stjórnarformaður Teymis og fagna aðgerðunum. Félagið segir að húsleitin muni taka af allan vafa um eðlilega og heiðarlega viðskiptahætti fyrirtækisins.

„Virk samkeppni á fjarskiptamarkaði er grundvallarforsenda í rekstri Vodafone," segir í tilkynningu og bætt við að án slíkrar samkeppni væri fyrirtækið ekki til. „Rannsókn Samkeppniseftirlitsins mun staðfesta að fjarskiptafyrirtækin á Íslandi eiga í harðri samkeppni. Starfsfólk Vodafone mun aðstoða fulltrúa Samkeppniseftirlitsins á allan þann hátt sem óskað verður eftir og leggja sitt að mörkum svo eftirlitið geti unnið sitt starf hratt og vel."

Þá segir að aðgerðirnar muni ekki trufla starfsemi Vodafone á nokkurn hátt og viðskiptavinir „fá áfram þá góðu þjónustu sem þeir eru vanir. Vodafone mun hér eftir sem hingað til leiða þá samkeppni á fjarskiptamarkaði sem skilað hefur verulegri verðlækkun og aukinni þjónustu við neytendur."

„Vodafone fagnar aðgerðum Samkeppniseftirlitsins, enda mun rannsókn á fjarskiptamarkaðnum taka af allan vafa um eðlilega og heiðarlega viðskiptahætti fyrirtækisins," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×