Körfubolti

Umfjöllun: Bikarmeistararnir lagðir af Keflvíkingum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Keflavík sigldi í sextán liða úrslit bikarsins í kvöld.
Keflavík sigldi í sextán liða úrslit bikarsins í kvöld.

Það er ljóst að Stjörnumenn munu ekki verja bikarmeistaratitil sinn í körfubolta en þeir voru slegnir út af Keflvíkingum í kvöld. Suðurnesjaliðið gerði góða ferð í Garðabæinn og vann 97-76 útisigur.

Búið var að draga fram bikarinn sjálfan og hann hafður fyrir augum áhorfenda. Það er um að gera fyrir Garðbæinga að njóta hans meðan hægt er.

Fannar Freyr Helgason er á meiðslalistanum og augljóslega sárt saknað í Stjörnuliðinu. Keflvíkingar léku hörkufína vörn og nýttu sér hæðarmuninn undir körfunni. Þeir náðu að koma fram hefndum en Stjörnumenn unnu deildarleik þessara liða fyrr í vetur.

Lítil spenna var í leiknum í kvöld og sigur Keflavíkur í raun aldrei í hættu. Liðið var betra á flestum sviðum og vann öruggan og fyllilega verðskuldaðan sigur.

Keflvíkingar voru með tökin allan tímann og höfðu tólf stiga forystu í hálfleik. Þeir hleyptu síðan Garðbæingum aldrei nálægt sér í seinni hálfleiknum og sigldu örugglega inn í sextán liða úrslit Subway-bikarkeppninnar.

Stjarnan - Keflavík 76-97

Stigahæstir hjá Stjörnunni: Justin Shouse 31, Jovan Zdravevski 20, Magnús Helgason 11.

Stigahæstir hjá Keflavík: Gunnar Einarsson 27, Rashon Clark 19, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 19, Hörður Axel Vilhjálmsson 14.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×