Enski boltinn

Di Maria: Mig dreymir um að spila með United

Ómar Þorgeirsson skrifar
Angel Di Maria.
Angel Di Maria. Nordic photos/AFP

Vængmaðurinn efnilegi Angel Di Maria hjá Benfica hefur rækilega slegið í gegn undanfarið og hefur því í kjölfarið verið sterklega orðaður við félög á borð við Chelsea, Manchester United og Manchester City.

Sir Alex Ferguson og félagar í United gætu þó haft smá forskot á önnur lið þar sem hinn 21 árs gamli landsliðsmaður Argentínu er forfallinn aðdáandi Englandsmeistaranna.

„Mig dreymir um að spila með Manchester United og ég mun ekki gefast upp fyrr en draumurinn verður að veruleika. Þegar ég horfi á Wayne Rooney og alla þessa kalla í sjónvarpinu þá hreinlega get ég ekki beðið eftir því að fá tækifæri til þess að spila fyrir félagið.

Þegar ég var yngri horfði ég líka á leiki með Arsenal en ég heillaðist alltaf meira af United," er haft eftir Di Maria í viðtali við götublaðið The Sun.

Ein stór hindrun stendur þó enn í vegi fyrir því að Di Maria fari til United og það eru forráðamenn Benfica en þeir hafa þvertekið fyrir það að Di Maria fari þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar og hafa þess utan skellt 36 milljón punda verðmiða á leikmanninn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×