Innlent

Fékk gullmedalíu Evrópsku augnlæknaakademíunnar

Einar Stefánsson
Einar Stefánsson
Einar Stefánsson prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir við augndeild Landspítalans fékk fyrir helgi gullmedalíu evrópsku augnlækna-akademíunnar (European Academy of Ophthalmology). Þetta var tilkynnt á fundi akademíunnar í Amsterdam á föstudag. Um leið var Einar tekinn sem meðlimur í akademíuna en hún telur 48 evrópska augnlækna og vísindamenn. Þetta eru afar jákvæð tíðindi fyrir íslenskt vísindasamfélag, Háskóla Íslands, Landspítalann og Einar sjálfan.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Rannsóknir Einars á forvörnum gegn blindu í sykursýki hafa vakið athygli víða um heim. Einnig hafa rannsóknir hans á sviði súrefnisefnaskipta augans vakið mikla athygli þar sem leitað er skýringa á því hví leiser meðferð er hjálpleg í augnsjúkdómi í sykursýki og æðalokunum.

Rannsóknir Einars og Jóns Atla Benediktssonar, prófessors við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands, hafa verið til umfjöllunar víða um heim en þeir tveir hafa í félagi við aðra þróað súrefnismæli fyrir augnbotna sem getur tryggt meðferð við augnsjúkdómum fyrr en áður var kleift. Sprotafyrirtækið Oxymap var stofnað til þróa áfram lausnir sem tengjast þessum rannsóknum þeirra.

Þá hefur augnlyfjaþróun Einars Stefánssonar og Þorsteins Loftssonar, prófessors í lyfjafræðideild HÍ, einnig vakið mikla athygli enda opnar sú þróun þeirra möguleika á nýrri og frumlegri meðferð við augnsjúkdómum. Sprotafyrirtækið Oculis hefur verið stofnað um áframhaldandi þróun sem tengist rannsóknum þeirra Einars og Þorsteins.

Einar Stefánsson fékk fyrir tæpu ári hin virtu Jules Gonin verðlaun sem eru veitt annað hvert ár þeim einstaklingum í heiminum sem þykja hafa staðið sig öðrum framar í augnrannsóknum og lækningum, sérstaklega á sviði sjónhimnusjúkdóma. "




Fleiri fréttir

Sjá meira


×