Fótbolti

Lippi: Enska úrvalsdeildin getur varla talist vera ensk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcello Lippi, þjálfari ítalska landsliðsins.
Marcello Lippi, þjálfari ítalska landsliðsins. Mynd/AFP
Marcello Lippi, þjálfari ítalska landsliðsins, hefur fulla trú á því að hans lið geti varið heimsmeistaratitilinn í Suður-Afríku á næsta ári. Hann óttast ekki Englendinga þrátt fyrir frábæran árangur enskra liða í Meistaradeildinni í ár.

„Landsliðið mitt hefur ekki neina veikleika og við erum tilbúnir í að vinna aðra heimsmeistarakeppni. Markmiðið mitt hefur alltaf verið að búa til sigurlið með karaktereinkenni liðsins frá 2006," sagði Lippi.

Ítalski landsliðsþjálfarinn segir enska landsliðið ekki græða á því þótt að þrjú ensk lið hafi komist alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar í ár.

„Það eru allir að hrósa enskum fótbolta en enska úrvalsdeildin getur varla talist vera ensk. Eigendurnir og stjórarnir eru flest allir erlendir og liðin eru líka full af útlendingum," segir Lippi.

Lippi talar um að landi sinn, Fabio Capello, sér í allt annarri stöðu en hann og kemur með harðar tölur því til stuðnings.

„Capello getur valið úr 38 prósent af leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar á sama tíma og ég get valið úr 60 prósent leikmannanna í A-deildinni," segir Lippi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×