Innlent

Stjórnvöld ekki látin vita af frestun AGS láns

Sigríður Mogensen skrifar

 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun ekki taka málefni Íslands fyrir næsta mánudag, samkvæmt talsmanni sjóðsins. Ríkisstjórninni hefur þó ekki borist formleg tilkynning um þetta.

Verði það niðurstaðan að fyrirtaka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á málefnum Íslands frestist, er ljóst að það setur efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda í uppnám.

Caroline Atkinson, talsmaður sjóðsins, sagði á blaðamannafundi í New York í dag að stjórn sjóðsins myndi ekki taka endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands fyrir næstkomandi mánudag. Raunar hafi sú dagsetning aldrei verið formleg. Hún segist þó búast við að málefni Ísland verði tekin fyrir fljótlega. Fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands hefur ítrekað verið frestað á síðustu mánuðum.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í samtali við fréttastofu nú rétt fyrir fréttir að engin formleg tilkynning hefði enn borist frá sjóðnum vegna málsins.

Ef endurskoðun sjóðsins frestast þýðir það að önnur greiðsla lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til Íslands frestast ásamt lánunum frá Norðurlöndunum.

 

VIÐBÓT: Steingrímur J. Sigfússon fjármálráðherra sagði í samtal við fréttastofu fyrir nokkrum mínútum að von sé á formlegri tilkynni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um hugsanlega frestun á umfjöllun um málefni Íslands, eftir klukkustund. Hann ræddi við fulltrúa sjóðsins nú rétt áðan, en sagðist ekki geta upplýst hvað þeim fór á milli, það muni hins vegar koma fram í umræddri tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×