Raunveruleikalýðræði Davíð Þór Jónsson skrifar 17. ágúst 2009 10:36 Það er gott og gaman að horfa á sjónvarp. Sjónvarpið er orðið svo stór hluti af tilveru okkar að satt best að segja er erfitt að ímynda sér tilveruna án þess. Það er eins og gluggi á hverju heimili út í umheiminn. Það veitir okkur ómælda skemmtun, upplýsingar, fróðleik og afþreyingu. Vegna sjónvarpsins getum við verið vitni að heimssögulegum atburðum, hvar sem er í heiminum, um leið og þeir eiga sér stað. En það sama gildir um sjónvarpið og flest annað sem er gott og gaman. Það er hægt að týna sjálfum sér í því. Fólk getur ánetjast sjónvarpsglápi og misst af lífi sínu við að horfa á líf annarra. Þess vegna á sjónvarpsstöðin Skjár einn sérstakar þakkir skilið fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn sjónvarpsfíkn. Það er í því fólgið að bjóða upp á sjónvarpsefni sem engin manneskja með meðalgreind eða meira getur mögulega límst við. Mikill meirihluti þáttanna sem þar eru sýndir er í raun einn og sami heimskulegi þátturinn í mismunandi umgjörð. Alltaf endar hann á því að einhver er sendur heim - af því að hann grenntist ekki nóg, var ekki nógu duglegur að bjarga sér í óbyggðum eða var ekki nógu efnilegur söngvari, dansari, kokkur, innanhússhönnuður, tískudrós, vonbiðill, fyrirsæta og þar fram eftir götunum. Þetta er hið svokallaða raunveruleikasjónvarp. En í raun er ekkert svo slæmt að ekki sé hægt að læra af því. Nú sitjum við til dæmis í súpunni eftir að hafa, með lýðræðislegum hætti, valið yfir okkur glæpsamlega vanhæfa stjórnmálamenn. Ekkert bendir til þess að þeir ætli að læra af reynslunni. Þeim, sem mesta ábyrgð bera á ógæfu þjóðarinnar, virðist jafnvel vera svo gersamlega um megn að geta lært að skammast sín, að þeir þykjast þess siðferðilega umkomnir að hafa skoðun á því með hvaða hætti eigi að þrífa upp skítinn eftir afglöp þeirra. Og hreinsunardeildin er líka föst í skotgröfum flokkslínunnar, hugarfarsins sem varð okkur að falli til að byrja með. Þar sem fulltrúalýðræðið hefur reynst okkur svona illa legg ég því til að við tökum upp svokallað „raunveruleikalýðræði". Það felst í því að í stað þess að kjósa 63 einstaklinga til þingvistar á fjögurra ára fresti fáum við einu sinni í viku að kjósa einhvern burt af eyjunni. Gæti það mögulega reynst okkur verr? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Davíð Þór Jónsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Það er gott og gaman að horfa á sjónvarp. Sjónvarpið er orðið svo stór hluti af tilveru okkar að satt best að segja er erfitt að ímynda sér tilveruna án þess. Það er eins og gluggi á hverju heimili út í umheiminn. Það veitir okkur ómælda skemmtun, upplýsingar, fróðleik og afþreyingu. Vegna sjónvarpsins getum við verið vitni að heimssögulegum atburðum, hvar sem er í heiminum, um leið og þeir eiga sér stað. En það sama gildir um sjónvarpið og flest annað sem er gott og gaman. Það er hægt að týna sjálfum sér í því. Fólk getur ánetjast sjónvarpsglápi og misst af lífi sínu við að horfa á líf annarra. Þess vegna á sjónvarpsstöðin Skjár einn sérstakar þakkir skilið fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn sjónvarpsfíkn. Það er í því fólgið að bjóða upp á sjónvarpsefni sem engin manneskja með meðalgreind eða meira getur mögulega límst við. Mikill meirihluti þáttanna sem þar eru sýndir er í raun einn og sami heimskulegi þátturinn í mismunandi umgjörð. Alltaf endar hann á því að einhver er sendur heim - af því að hann grenntist ekki nóg, var ekki nógu duglegur að bjarga sér í óbyggðum eða var ekki nógu efnilegur söngvari, dansari, kokkur, innanhússhönnuður, tískudrós, vonbiðill, fyrirsæta og þar fram eftir götunum. Þetta er hið svokallaða raunveruleikasjónvarp. En í raun er ekkert svo slæmt að ekki sé hægt að læra af því. Nú sitjum við til dæmis í súpunni eftir að hafa, með lýðræðislegum hætti, valið yfir okkur glæpsamlega vanhæfa stjórnmálamenn. Ekkert bendir til þess að þeir ætli að læra af reynslunni. Þeim, sem mesta ábyrgð bera á ógæfu þjóðarinnar, virðist jafnvel vera svo gersamlega um megn að geta lært að skammast sín, að þeir þykjast þess siðferðilega umkomnir að hafa skoðun á því með hvaða hætti eigi að þrífa upp skítinn eftir afglöp þeirra. Og hreinsunardeildin er líka föst í skotgröfum flokkslínunnar, hugarfarsins sem varð okkur að falli til að byrja með. Þar sem fulltrúalýðræðið hefur reynst okkur svona illa legg ég því til að við tökum upp svokallað „raunveruleikalýðræði". Það felst í því að í stað þess að kjósa 63 einstaklinga til þingvistar á fjögurra ára fresti fáum við einu sinni í viku að kjósa einhvern burt af eyjunni. Gæti það mögulega reynst okkur verr?