Fótbolti

Moggi: Mourinho er ekki jafn frábær og margir halda

Ómar Þorgeirsson skrifar
Luciano Moggi.
Luciano Moggi. Nordic photos/AFP

Hinn málglaði Luciano Moggi, fyrrum stjórnarformaður Juventus, vill meina að knattspyrnustjórinn Jose Mourinho sé ekki á meðal þeirra bestu í bransanum þrátt fyrir góðan árangur liða hans í gegnum tíðina.

„Það færi Mourinho betur að vinna við almannatengsl heldur en knattspyrnustjórn. Hann er samt ágætis náungi sem gerir allt til þess að verja leikmenn liðs síns frá fjölmiðlum.

Hvað varðar knattspyrnustjórn þá er hann ekki einu sinni með tærnar þar sem Macello Lippi, Fabio Capello og Carlo Ancelotti eru með hælana. Hann er því ekki jafn frábær stjóri og margir halda fram," segir Moggi í samtali við útvarpsstöðina Radio Radio.

Í seinni tíð hefur Moggi verið hve best þekktur fyrir að vera andlit mútuhneykslisins sem kom upp á Ítalíu árið 2006 og hefur verið kallað „Calciopoli" eða „Moggiopoli" þar sem dómurum var mútað til þess að hagræða úrslitum leikja. Juventus var fyrir vikið strípað meistaratitlum sínum frá árunum 2005 og 2006 og dæmt niður um deild.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×