Innlent

Ekkert barn yngra en 6 ára í Öræfum

Það er ákveðin viðvörunarmerki fyrir Öræfasveit að þar skuli ekki vera neitt barn yngra en sex ára, segir skólastjóri grunnskóla sveitarinnar.

Grunnskóli Öræfinga er í Hofgarði sem jafnframt er félagsheimili sveitarinnar. Sex börn koma úr suðurhluta sveitarinnar með skólabílnum, sem var áður búinn að sækja fimm börn úr norðurhlutanum, alls ellefu nemendur. Þetta er því lítill en um leið heimilislegur skóli og það er engin rafræn skólabjalla. Bekkirnir eru aðeins tveir, yngri bekkur og eldri bekkur.

Pálína Þorsteinsdóttir skólastjóri segir skólahaldið ganga ágætlega, þrátt fyrir fámennið. Þau þekki ekkert annað. Tveir kennarar eru í fullu starfi og tveir í hlutastarfi, tónlistarkennari og stuðningsfulltrúi, og matráðskona starfar einnig við skólann. Háhraðainternet er ekki í sveitinni, og því er netið svo hægt að tölvur nemenda eru ekki einu sinni tengdar netinu.

Það vekur hins vegar upp spurningar um framtíð skólans að það er ekkert barn yngra en 6 ára í sveitinni. Skólahaldi er sjálfhætt ef ekki koma fleiri börn. Skólastjórinn fyllist þó ekki vonleysi. Ferðaþjónusta sé vaxandi að það geti alveg eins gerst að ný störf skapist og að fólk með börn flytji inn í sveitina.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×