Lífið

Lítið sést til Magnúsar Scheving

Magnús Scheving er lítt áberandi í stiklu kvikmyndarinnar The Spy Next Door þrátt fyrir að hlutverk hans verði að teljast nokkuð stórt.fréttablaðið/GVA
Magnús Scheving er lítt áberandi í stiklu kvikmyndarinnar The Spy Next Door þrátt fyrir að hlutverk hans verði að teljast nokkuð stórt.fréttablaðið/GVA

Magnús Scheving leikur sem kunnugt er aðalskúrkinn í Jackie Chan-myndinni The Spy Next Door. Hlutverkið er nokkuð stórt en myndin skartar auk þeirra tveggja Billy Ray Cyrus, föður unglingastjörnunnar Miley Cyrus, og George Lopez sem áhorfendur Stöðvar 2 ættu að kannast við úr samnefndum gamanþáttum.

Stikla myndarinnar var nýlega frumsýnd á netinu og er meðal annars hægt að nálgast hana á You Tube. Og þar má sjá Hong Kong-stjörnuna lemja frá sér með alls kyns tólum og tækjum. Eflaust hafa aðdáendur Sportacusar eða Íþróttaálfsins beðið með öndina í hálsinum eftir að sjá Magnús birtast í gervi hins illa PolDark en þeir hafa þurft að rýna ansi stíft í stikluna til að sjá íslensku hetjunni bregða fyrir. Því sú stund varir ekki lengur en í eitt sekúndubrot. Mestur tíminn fer í að sýna Jackie á hlaupum eða í baráttu við krakkana sem hann á að passa.

Í athugasemdakerfi má síðan lesa að mörgum þykir myndin svipa ansi mikið til Vin Diesel-myndarinnar The Pacifier en þar lék vöðvabúntið einmitt hörkutól sem falið er að passa nokkra krakka. Samkvæmt imdb.com verður myndin frumsýnd hinn 15. janúar á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.