Lífið

Bláa gullið glóir í Borgó

Leiklist Trúðarnir í Bláa gullinu: María Pálsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir og Víkingur Kristjánsson.Mynd/Opið út/LR
Leiklist Trúðarnir í Bláa gullinu: María Pálsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir og Víkingur Kristjánsson.Mynd/Opið út/LR

Í dag verður frumsýnt verk fyrir fólk á aldrinum 9 til 99 ára sem fjallar um vatn. Sýningin hefur það að markmiði að sýningargestir sjái vatn í nýju ljósi; upplifi margbreytileika, mikilvægi og töfra bláa gullsins.

Þrír trúðar leiða áhorfendur um sögusvið vatnsins sem hefur verið á stöðugu ferðalagi um jörðina í árþúsundir; undir og á yfirborði hennar, í öllu lífverum og um himingeiminn. Trúðarnir varpa fram ýmsum spurningum um eðli og uppruna vatnsins á fræðandi en trúðslegan hátt.

Opið út, sjálfstætt starfandi leikhús, með Charlotte Böving í broddi fylkingar, setur sýninguna upp í samvinnu við Borgarleikhúsið. Ragnhildur Gísladóttir sér um hljóðmynd og Gjörningaklúbburinn sér um leikmynd og búninga. Opið út stóð í fyrra fyrir uppsetningu á Mamma mamma í Hafnarfjarðarleikhúsinu.

Leikarar í trúðsleiknum um vatnið eru þau María Pálsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir og Víkingur Kristjánsson. Hópurinn samdi verkið undir stjórn Charlotte Böving sem leikstýrir. Sýningar verða allar helgar á Litla sviði Borgarleikhússins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.