Handbolti

Björgvin Páll: Vildum sýna að við værum með miklu betra lið

Ómar Þorgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson.

Markvörðuinn Björgvin Páll Gústavsson var með allra bestu leikmönnum íslenska liðsins í kvöld og varði 21 skot. Hann var því að vonum ánægður í leikslok.

„Við byrjuðum bara á fullu og gerðum allt sem lagt var upp með fyrir leikinn og með stúkuna brjálaða á bak við okkur. Makedónar áttu því í raun aldrei möguleika í okkur og við vildum líka sýna og sanna að við værum með miklu betra lið en þeir. Gummi gerði vel við að slípa þennan hóp saman og það virtist ekki skipta miklu máli hverjir voru inni á vellinum. Menn lögðu allt sitt í þetta og mórallinn í hópnum er frábær," segir Björgvin Páll.

Íslenska liðið gerði mjög vel við að stoppa stórskyttuna Kiril Lazarov en leikmaðurinn var til að mynda markahæstur á HM í Króatíu á þessu ári.

„Lazarov á að vera ein besta hægri skyttan í heiminum en við gerðum bara grín að honum frá a til ö allan leikinn og hann var bara eins og lítill krakki í höndunum á okkur. Við vorum búnir að kortleggja Lazarov vel og ég og Hreiðar lögðumst aftur yfir þetta í dag. Allir leikmenn hafa sýna galla og við gátum kallað fram alla gallana í leik Lazarovs hér í kvöld," segir Björgvin Páll ánægður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×