Lífið

Kynlífið gerði kraftaverk

vel heppnuð tilraun Kristín Gígja og Eiríkur Birkir stunduðu kynlíf á hverjum degi í mánuð og sambandið batnaði til muna.fréttablaðið/Anton
vel heppnuð tilraun Kristín Gígja og Eiríkur Birkir stunduðu kynlíf á hverjum degi í mánuð og sambandið batnaði til muna.fréttablaðið/Anton

„Tilraunin gerði stórt kraftaverk - ég mæli eindregið með þessu," segir Kristín Gígja Sigurðar­dóttir.

Kristín Gígja og Eiríkur Birkir Ragnarsson, kærasti hennar, tóku þátt í kynlífstilraun útvarpsstöðvarinnar Kanans sem hófst fyrir tæpum mánuði. Tilraunin gekk út á að tvö pör stunduðu kynlíf einu sinni á dag í heilan mánuð og deildu svo reynslunni á nafnlausu bloggi á vefsíðu Kanans.

„Fyrst var þetta algjör kvöð. Þetta var eiginlega partur af prógramminu hjá mér þó að hann hafi verið spenntur allan tímann," segir Kristín. „Eftir fyrstu vikuna fórum við að sjá breytingu á því hvernig við tölum saman og hvernig líf okkar í kringum heimilið og krakkana breyttist til batnaðar. Ég fór að vera ánægð með þetta og byrjaði að sýna frumkvæði, sem gerðist mjög sjaldan áður."

Kristín og Eiríkur lýstu tilrauninni oft á afar berorðan hátt á blogginu. Eiríkur var til dæmis mjög ánægður með baðferð þegar farið var að síga á seinni hluta tilraunarinnar: „Ég ætla að tala um miðnæturstundina okkar Kristínar, sem var í baðkarinu hérna heima. Gott spjall á undan, sem er einstakur forleikur, og svo var látið allt vaða. Þetta var nýtt, spennandi og framandi," sagði hann.

Tilrauninni lýkur á morgun, en Kristín býst þó ekki við að hún og Eiríkur hætti að stunda kynlíf daglega enda misstu þau ekki úr dag meðan á tilrauninni stóð, þrátt fyrir að vera bæði mjög upptekin. „Ég var einu sinni sofandi þegar hann kom seint heim og hann vakti mig bara," segir hún og hlær. „Þetta er ekki kvöð, okkur finnst þetta skemmtilegt og það er alltaf eitthvað nýtt hjá okkur. Á tímapunkti hættum við að spá í að stunda kynlíf vegna þess að við vorum í tilraun. Núna er það orðið spennandi. Við erum farin að tala meira saman á kvöldin áður en tilraunin er framkvæmd og forleikurinn okkar er djúpt og skemmtilegt spjall. Það er svo margt sem spilar inn í. Tilraunin er búin að bjarga miklu í okkar sambandi."atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.