Lífið

Barnabókahöfundar á þingi

Höfundar á þingi Margrét Tryggvadóttir hlaut barnabókaverðlaun árið 2006 fyrir bók sína. Fyrsta barnabók Guðmundar er komin í bókaverslanir. fréttablaðið/gva
Höfundar á þingi Margrét Tryggvadóttir hlaut barnabókaverðlaun árið 2006 fyrir bók sína. Fyrsta barnabók Guðmundar er komin í bókaverslanir. fréttablaðið/gva

Þingmennirnir Guðmundur Steingrímsson og Margrét Tryggva­dóttir skiptust á barnabókum fyrr í vikunni. Bók Guðmundar um Svínið Pétur kemur út fyrir jól en bók Margrétar, Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar, hlaut barnabókaverðlaun árið 2006.

Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar fjallar um prinsessu í fjarlægu konungsríki á meðan bók Guðmundar fjallar um svínið Pétur sem er ekki gráðugt heldur er sátt við sína stöðu.

„Það rann upp fyrir okkur ljós að við vorum bæði barnabóka­höfundar, hún Margrét er reyndar eldri í faginu en ég og við ákváðum í kjölfarið að skiptast á bókum og gerðum það í gær þegar ljósmyndari átti leið hjá. Margrét fékk bókina Svínið Pétur eftir mig og ég fékk prinsessubókina hennar í staðinn,“ segir Guðmundur, en þetta er fyrsta barnabók hans.

„Bókin fjallar um svínið Pétur sem er ekki gráðugt, hin dýrin í Dýrabæ bjóða honum gull og græna skóga ef hann vill gefa þeim eitthvað í skiptum en Pétur lætur ekki ginnast. Þetta er í raun gömul saga í nýjum búningi og var skrifuð í góðærinu og ber þess kannski merki hvað höfundur var orðinn þreyttur á þeim dansi.“ Guðmundur segir bókina hafa fengið góða dóma frá fimm ára dóttur sinni og var boðskapur bókarinnar mikið ræddur. „Bókin fékk góða dóma hjá dóttur minni, sem er líka mjög ánægð með prinsessubókina hennar Margrétar,“ segir Guðmundur sem tekur ekki fyrir að annarrar bókar megi vænta frá honum. „Ef mér gefst tími til þess á milli þingstarfa er ekki ólíklegt að ég skrifi fleiri bækur um svínið Pétur.“ - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.