Lífið

Jón Gnarr stofnar stjórnmálaflokk

Vinir Jóns Gnarr geta hugsað sér til gott til glóðarinnar komist hann á þing.
Vinir Jóns Gnarr geta hugsað sér til gott til glóðarinnar komist hann á þing.
Jón Gnarr hefur stofnað stjórnmálaflokk. Hann heitir Besti flokkurinn og Jóni er full alvara. „Mig hefur lengi langað til að hafa völd og góð laun. Góð leið til þess er að verða lýðræðislega kosinn," segir Jón, fullur einlægni. „Mig langar líka að komast í þá stöðu að ég geti hjálpað vinum mínum. Það eru endalaust margar leiðir til þess. Það má úthluta alls konar styrkjum og búa til hinar ýmsu nefndir. Fólk þarf svo ekkert endilega að mæta á fundi, en fær bara borgað."

Jón veit að þessi tilgangur flokksins mun varla virka á kjósendur svo hann hefur búið til sannfærandi stefnuskrá. „Stefnuskrána fékk ég lánaða hjá öðrum stjórnmálaflokkum. Þarna er eitthvað um að bjarga heimilunum, að draga til ábyrgðar þá sem bera ábyrgð á hruninu og hlusta meira á konur, gamalmenni og aumingja. En þetta er auðvitað bara yfirvarp. Ég vona þó að fólk taki því ekkert of bókstaflega þótt ég segist ekki ætla að standa við kosningaloforðin."

Jón setur stefnuna á að verða menntamálaráðherra. „Flestir vinir mínir eru að vinna í listum og menningu svo ég gæti haft áhrif á það hverjir fá styrki og fálkaorðu og hverjir fá að gera þátt á RÚV. Auk þess hefur mig lengi dreymt um að hafa aðstoðarmann. Ég held að það sé ógeðslega kúl."

Jón safnar nú fólki í flokkinn af því hann vill ekki vera einn í honum „eins og hálfviti" og unnið er að því að setja upp heimasíðu.

- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.