Viðskipti erlent

Englandsbanki græddi 190 milljarða á bankabjörgunum

Englandsbanki hagnaðist um tæpan milljarð punda eða um 190 milljarða kr. á síðasta reikningsári bankans sem lauk í lok febrúar s.l.

Í frétt um málið á Timesonline segir að bankinn hafi blómstrað á sama tíma og að sumir stærstu bankar landsins hafi farið á hnéin og þurft á björgunaraðgerðum að halda.

Hagnaður Englandsbanka nú er fimmfalt meiri en á árinu 2008 og raunar sá mesti í sögu bankans sem nær aftur til ársins 1694.

Ríkissjóður Englands hefur notið góðs af þessum mikla hagnaði því í apríl s.l. greiddi bankinn rúmlega 200 milljónir punda í ríkissjóðinn og reiknað er með að sama greiðsla komi á ný í október.

Þessi hagnaður er bein afleiðing af björgunar- og stuðningsaðgerðum Englandsbanka við breska bankakerfið frá því á seinnihluta síðasta árs. Bankinn hefur tekið vexti og gjöld af þeim upphæðum sem hann hefur lánað út í bankakerfið.

Talsmaður bankans segir að það hafi verið algerlega réttmætt af bankanum að taka gjöld fyrir þá aðstoð og þær lánalínur sem bankinn veitti.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×