Þýska úrvalsdeildarfélagið Bielefeld er í bullandi fallhættu þegar ein umferð er eftir. Félagið rak þjálfarann eftir 6-0 skell gegn Dortmun um helgina og hefur nú kallað á sérstakan kraftaverkamann til að halda liðinu uppi.
Bielefeld hefur samið við þjálfarann Jörg Berger um að taka við liðinu í lokaleiknum gegn Hannover á laugardaginn.
Berger þessi hefur fengið viðurnefnið "slökkviliðsmaðurinn" eftir að hafa bjargað nokkrum smáklúbbum frá falli í gegn um tíðina. Hann hefur áður verið á mála hjá m.a. Frankfurt og Schalke.
Berger hefur samþykkt að taka við Bielefeld í þennan eina leik og vill ekkert ræða framtíðina. "Nú hugsum við bara um leikinn gegn Hannover," sagði Berger.
Bielefeld er í þriðja neðsta sæti í úrvalsdeildinni með 27 stig og er í sætinu fyrir ofan Energie Cottbus á markamun. Karlsruhe er í neðsta sætinu með 26 stig.
Tvö neðstu liðin í deildinni falla í aðra deild en liðið í þriðja neðsta sæti efstu deildar fer í umspil við liðið sem hafnaði í þriðja sæti annarar deildar um laust sæti í þeirri efstu.