Innlent

Þaggað niður í nýjum framboðum

Forystumenn Borgarahreyfingarinnar á fundi með blaðamönnum 30. mars sl.
Forystumenn Borgarahreyfingarinnar á fundi með blaðamönnum 30. mars sl. Mynd/GVA
Borgarahreyfingin mótmælir harðlega að hætt hafi verið við gjaldfrjálsar sjónvarpskynningar í Ríkissjónvarpinu. Af því tilefni hefur hreyfingin sent Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, og Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, bréf þar sem ákvörðunin er fordæmd. Borgarahreyfingin segir að flokkakerfið þaggi niður í nýjum framboðum.

Fram kemur í tilkynningu frá Borgarahreyfingunni að Ríkisútvarpið hafi hætt við að útdeila framboðum til Alþingis tíu mínútuna gjaldfrjálsum útsendingartíma í Sjónvarpinu. Sú ákvörðun hafi verið tekin af því að meirihluti stjórnmálaflokkanna hafi ekki viljað notfæra sér gjaldfrjálsa útsendingu.

„Þeir flokkar sem sitja á Alþingi og hafa veitt sjálfum sér rausnarlega úr sjóðum almennings geta með öðrum orðum afþakkað gjaldfrjálsa útsendingu fyrir eigin framboð og þannig komið í veg fyrir gjaldfrjálsa kynningu annarra framboða. Nýrra framboða sem ekki hafa í neina sjóði að ganga til að kynna stefnumál sín,“ segir í tilkynningu.

Að mati Borgarahreyfingarinnar er fullkomlega óboðlegt í lýðræðissamfélagi að rótgrónir stjórnmálaflokkar geti keypt sér alla þá auglýsingu sem þá lystir og um leið komið í veg fyrir að raddir nýrra framboða heyrist.

Borgarahreyfingin krefst þess að þau framboð sem vilja fái umræddan tíu mínútna útsendingartíma gjaldfrjálst til kynningar á stefnumálum sínum í sjónvarpi allra landsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×