Viðskipti erlent

Baugur og Straumur leita að kaupanda að Magasin du Nord

Carsten Fensholt fjármálastjóri Magasin du Nord í Kaupmannahöfn segir að greiðslustöðvun Baugs hafi ekki bein áhrif á rekstur verslunarinnar. Hinsvegar leiti Baugur í samvinnu við Straum nú ákaft að kaupenda að versluninni.

Í viðtali við business.dk segir Fensholt að Magasin du Nord sé ekki háð íslenskri fjármögnun frá Baugi og því haldi reksturinn áfram þrátt fyrir greiðslustöðvun Baugs.

"Straumur hefur tekið við stjórninni með Baugi en allt heldur áfram eins og venjulega," segir Fensholt. "Við leitum nú að nýjum eigendum því það segir sig sjálft að Magasin á ekki að vera í eigu banka."

Búið er að hagræða mikið í rekstri Magasin að undanförnu og hefur starfsfólki verið fækkað úr 1.900 niður í 1.200 manns. Fensholt reiknar með ágætu uppgjöri á þessu ári þrátt fyrir kreppuna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×