Lífið

Sonur Gunna Þórðar er kominn í tónlistarbransann

Proggaðir Hljómsveitin Caterpillarmen frá vinstri: Andri, Zakarías, Ísak Örn og Ingimundur.Fréttablaðið/Stefán
Proggaðir Hljómsveitin Caterpillarmen frá vinstri: Andri, Zakarías, Ísak Örn og Ingimundur.Fréttablaðið/Stefán

Eplið fellur sjaldnast langt frá eikinni. Sonur Gunna Þórðar þreifar nú fyrir sér í tónlistinni.

„Nei, við erum ekkert líkir Trúbroti, þetta er nú frekar eins og King Crimson, Yes og ELP rúllað upp í eitt,“ segir Zakarías Gunnars­son, 21 árs sonur Gunnars Þórðarsonar tónlistarmanns. Zakarías spilar á bassa með hljómsveitinni Caterpillarmen. Með honum í bandinu eru bræðurnir Ísak Örn og Ingimundur Guðmundssynir á gítar og orgel og Andri Þórhallsson á trommur.

„Ég er gamli kallinn í bandinu, 21 árs,“ segir Zakarías. Hann segir hina hafa verið að fást við blúsrokk en bandið hafa farið að „proggast upp“ þegar hann kom til sögunnar í janúar á þessu ári. „Við sækjum samt alveg innblástur í yngri bönd eins og Battles,“ bætir hann við. Caterpillarmen hefur verið að vekja athygli að undanförnu með gríðarþéttri frammistöðu á tónleikum og fyrsta platan er tilbúin. Hún heitir Api og kemur út á vegum Brak-útgáfunnar bráðlega, eða „fyrir Airwaves,“ eins og Zakarías segir.

„Það eru sex lög á henni með eins mörgum köflum og hægt er að troða í hvert lag. Platan er samtals 38 mínútur. Við erum svo byrjaðir að pæla í næstu plötu og erum meðal annars komnir með eitt 20 mínútna lag sem skiptist í fjóra kafla.“

Á meðan synir Rúnars Júlíus­sonar hafa getið sér gott orð í músíkinni er Zakarías fyrsti afkomandi Gunna Þórðar sem lætur til sín taka á þessu sviði. „Ég byrjaði að læra á bassa tólf ára, fór á gítarinn fimmtán ára, og síðan aftur á bassann. Og jú, pabbi er mjög ánægður með bandið,“ segir hann.

Caterpillarmen: Leggið nafnið á minnið. Næst spilar bandið á Grand rokk nú á föstudagskvöldið á fjáröflunartónleikum fyrir Hljóðstofuna, nýtt hljóðver. Það kemur fram auk átta annarra hljómsveita, þar á meðal Mammút, Bob og Sudden Weather Change.

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.