Golf

Tiger tíu höggum á eftir efsta manni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tiger Woods lenti í vandræðum í gær.
Tiger Woods lenti í vandræðum í gær. Nordic Photos / AFP
Tiger Woods var tíu höggum á eftir Bandaríkjamanninum Lucas Glover þegar keppni lauk í nótt á öðrum keppnisdegi bandaríska meistaramótsins í golfi.

Keppni var frestað á föstudaginn vegna rigningar og náðu kylfingar því ekki að klára fyrsta hringinn sinn fyrr en í gær.

Glover var búinn að leika þrettán holur á sínum öðrum hring þegar keppni var hætt í nótt. Hann var þá á samtals sex höggum undir pari en hann fékk fimm fugla á þessum þrettán holum.

Tiger Woods lék fyrsta hringinn á fjórum höggum yfir pari í gær og verður því tíu höggum á eftir fremsta manni þegar hann hefur leik í dag. Aldrei hefur nokkrum tekist að sigra á opna bandaríska meistaramótinu eftir að hafa verið svo langt frá efsta manni eftir fyrsta hring.

Enn er spáð rigningu í dag og hætt við því að staðan muni ruglast enn frekar í dag enda nú þegar misjafnt hversu langt á veg keppendur eru komnir í mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×