Tískuvörurisinn Debenhams er nú sagður íhuga að fjárfesta í verslunarkeðjunum Karen Millen og Oasis sem nú eru í eigu Kaupþings en áður Baugs. Bloomberg segir frá þessu í kvöld en þetta er haft eftir innanbúðarmanni hjá Debenhams.
Áhuginn er sagður vera á Aurora Fashions Ltd. sem er einnig með merki eins og Coast og Warehouse á sínum snærum. Heimildarmaður Bloomberg vill ekki láta nafn síns getið þar sem um trúnaðarmál er að ræða.
„Þú getur fengið Aurora á kostakjörum nú, segjum 100 milljónir punda," segir Nick Bubb sérfræðingur hjá Pali International í London. „Þeir eru með mörg flott merki. Þetta gæti verið sniðugt."
Talsmaður Aurora segir hinsvegar að Kaupþing hafi litið á félagiði sem langtíma fjárfestingu og sé ekki á þeim buxunum að selja. Hann bætti því einnig við að allt væri á áætlun.
Starfsmenn Debenhams neituðu að tjá sig um þennan orðróm.
Viðskipti erlent