Viðskipti innlent

Steve Cosser ræðir við Jón Ásgeir

Valur Grettisson skrifar

Ástralski fjárfestirinn Steve Cosser var á fundi með Ara Edwald og Jóni Ásgeir Jóhannessyni í höfuðstöðum 365 í Skaftahlíð í dag. Með þeim var einnig forstjóri Stoða, Jón Sigurðsson.



Jón Sigurðsson gaf ekki færi á sér þegar hann kom út af fundinum.

Hinn ástralski Steve Cosser er hér á landi vegna hugsanlegra kaupa á Árvakri en hann, ásamt viðskiptafélaga sínum, Hollendingnum Everhard Visser, eru með annað tilboðið af tveimur í Morgunblaðið.

Fundurinn hófst í hádeginu og lauk svo um þrjú. Ekki er ljóst hvað var rætt en enginn þeirra gaf færi á sér í viðtal þegar eftir því var leitað.

Heimildir Vísis herma þó að rætt hafi verið um prentsmiðju Morgunblaðsins, ef svo kæmi til að Árvakur tæki tilboði Cossers og Vissers.

Jón Ásgeir hefur áður falast eftir því að sameina prentun og dreifingu Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Samkeppniseftirlitið hafnaði því hinsvegar í síðasta mánuði.

Sá sem á hitt tilboðið í Árvakur er fjarfestingahópur sem Óskar Magnússon leiðir. Ekki er vitað hvort rætt hafi verið við hann vegna hugsanlegrar sameiningar prentunar og dreifingar Árvakurs og Fréttablaðsins í framtíðinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×