Handbolti

Atli: Bara sigurvegarar í þessu liði

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Atli Hilmarsson.
Atli Hilmarsson. Mynd/Anton

„Við vorum að spila við frábært lið. Þetta var frábær leikur og hafði allt til að bera. Þetta var góð skemmtun, góðar varnir og vel spilaðar sóknir. Leiðinlegt að annað liðið þurfi að detta út,“ sagði glaðbeittur Atli Hilmarsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir, 30-28, sigur á Val í framlengdum oddaleik liðanna í undanúrslitum N1 deildar kvenna.

„Ég var ósáttur við lokin á fyrri hálfleik, að vera 17-13 yfir og fá á sig þrjú mörk í lokin. Það var ekki nógu gott að fara inn í hálfleikinn með eitt mark því kaflinn á undan því var mjög góður.

„Að missa Florentinu útaf og koma samt til baka er afrek með þetta unga lið. Meðalaldurinn er 20 ár. Okkur var jú spáð góðu gengi í byrjun en við misstum Birgit Engl og Önnu Úrsúlu og erum að spila á 16 til 17 ára stelpum.

„Við spiluðum frábæra vörn eftir að Florentina var rekin útaf. Við fórum aðeins framar og vildum hjálpa Sólveigu í markinu sem ver þetta skot frá Hrafnhildi í lokin sem gerir útslagið. Ég er ánægður með að mínar stelpur hættu ekki að sækja.

„Það eru bara sigurvegarar í þessu liði. Þær hafa vanist því að sigra og halda því áfram. Þær alast upp sem sigurvegarar hér og svo þegar þessar ungu stelpur koma á æfingar með þessum eldri þá taka þær á því og vinna allt sem er í boði,“ sagði kátur þjálfari Stjörnunnar í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×