Fjórir grímuklæddir piltar réðust inn á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði á tólfta tímanum í dag og slettu mjólkurafurðum yfir auglýsingaefni og húsbúnað.
„Það komu fjórir strákar inn til okkar og skvettu súrmjólk, skyri og einhverjum viðbjóði yfir auglýsingaefni okkar og sófa," segir Ásgeir Runólfsson kosningastjóri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Ásgeir veit ekki hvað piltunum gekk til þar sem þeir sögðu ekki neitt. Þess í stað skildu þeir talsvert eftir af ónotuðum varningi sem þeir hugðust nota inni á kosningaskrifstofunni.
Piltarnir hlupu á brott áður en lögregla kom á staðinn.
Innlent