Sport

Viktor og Fríða Rún Íslandsmeistarar í fjölþraut

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Kristmannsson og Fríða Rún Einarsdóttir, Íslandsmeistarar í fjölþraut.
Viktor Kristmannsson og Fríða Rún Einarsdóttir, Íslandsmeistarar í fjölþraut. Mynd/Valli

Viktor Kristmannsson og Fríða Rún Einarsdóttir, bæði úr Gerplu urðu í kvöld Íslandsmeistarar í fjölþraut í áhaldafimleikum. Viktor varð meistari sjöunda árið í röð en Fríða Rún var að vinna í fyrsta sinn.

Viktor hafði betur í baráttu við bróður sinn Róbert sem varð í öðru sæti. Bjarki Ásgeirsson úr Ármanni var síðan í þriðja sætinu.

Viktor getur bætt við verðlaunum á morgun þegar hann keppir í úrslitum á öllum sex áhöldunum sem keppt er á. Karlarnir keppa á gólfi, bogahesti, hringjum, stökki, tvíslá og svifrá.

Fríða Rún vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir spennandi keppni við Thelmu Rut Hermannsdóttur sem vann titilinn í fyrra. Fríða hlaut 50,05 stig en Thelma endaði með 49,50 stig.

Í þriðja sæti varð síðan Sigrún Dís Tryggvadóttir en þær eru allar þrjár úr Gerplu. Á morgun verður keppt til úrslita á fjórum áhöldum eða í stökki, á tvíslá, á jafnvægisslá og í gólfæfingum.

Í unglingaflokk i kvenna vann Tinna Óðinsdóttir úr Gerplu og Jón Sigurður Gunnarsson, Ármanni vann titilinn í unglingaflokki karla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×