Innlent

Svo vonar maður það besta

Pakkar niður Valgerður Grímsdóttir ætlar að starfa í hálft ár í borginni Najaf í Írak.
Pakkar niður Valgerður Grímsdóttir ætlar að starfa í hálft ár í borginni Najaf í Írak.

Heilbrigðismál Valgerður Grímsdóttir hjúkrunarfræðingur heldur í dag til Íraks á vegum Rauða kross Íslands til starfa fyrir Alþjóða Rauða krossinn. Mun hún dvelja í hálft ár í borginni Najaf og vinna að eflingu bráðaþjónustu á sjúkrahúsi borgarinnar.

Najaf er ein helgasta borg sjía-múslíma og hefur oft verið vettvangur átaka. Það er hins vegar mat Alþjóða Rauða krossins að ástandið sé nú stöðugt og því óhætt að senda þangað fulltrúa til starfa.

Ákveðið var í febrúar að Valgerður færi utan. „Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu og var tilbúin til að fara. Svo vonar maður það besta. Meira er ekki hægt að gera,“ segir hún.

Valgerður er einhleyp og barnlaus en segir foreldra sína, bróður og vini heldur á móti förinni.

Hún hefur ekki nákvæmar upplýsingar um aðbúnað á sjúkrahúsinu en kveðst reikna með að hann sé frekar fátæklegur og ólíkur því sem hér gerist. Að sama skapi er hún búin undir að lúta þeim siðum og venjum sem tíðkast meðal múslíma.

Valgerður hefur í tvígang áður unnið sem sendifulltrúi Rauða krossins, í bæði skiptin í Pakistan. Fyrst 1996 og svo eftir jarðskjálftana miklu í Kasmírhéraði 2005. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×